Í síðustu ársfjórðungsáætlun Lánamála ríkisins sem birt var í lok síðasta árs var tilkynnt að nýr óverðtryggður flokkur ríkisbréfa með gjalddaga árið 2027 yrði gefinn út i þessum ársfjórðungi. Jafnframt var tilkynnt að ríkissjóður myndi selja ríkisbréf í markflokkum fyrir 30-45 ma.kr. að söluvirði.
Það sem af er þessu ári hefur ríkissjóður gefið út ríkisbréf fyrir 44,2 ma.kr. og því aðeins 0,8 ma.kr. eftir til að ná markmiðum í ársfjórðunginum. Í ljósi góðs árangurs við fjármögnun ríkissjóðs á innanlandsmarkaði hefur verið ákveðið að fresta útgáfu á þessum nýja markflokki fram á næsta ársfjórðung.