Yfirlit ríkisábyrgða

 

  • Ríkisábyrgðasjóður var stofnaður með lögum árið 1962. Hlutverk hans er að annast undirbúning að veitingu ríkisábyrgða og afgreiðslu þeirra. Ennfremur á hann að annast innlausn krafna sem falla á ríkissjóð vegna ábyrgða sem hann hefur tekist á hendur, sem og innheimtu slíkra krafna. Sjóðurinn annast einnig ýmsa aðra starfsemi í sambandi við ríkisábyrgðir og endurlán. Við setningu laga um Lánasýslu ríkisins árið 1990 varð Ríkisábyrgðasjóður deild í Lánasýslu ríkisins.

  • Þeim lántakendum, sem njóta ábyrgðar ríkissjóðs á skuldbindingum sínum eða hyggjast taka erlend lán með ríkisábyrgð, er samkvæmt lögum um Lánasýslu ríkisins skylt að leita umsagnar hennar um fyrirhugaðar erlendar lántökur sínar. Fjármálaráðuneytið samdi við Seðlabanka Íslands um, að hann annaðist framkvæmd þessa ákvæðis í lögunum á sama hátt og hann annast erlend lánamál ríkissjóðs. Lánasýslan fær allar upplýsingar um erlendar lántökur ríkistryggðra lántakenda. Hið sama hefur ekki gilt um innlendar lántökur þessara aðila. Lánasýslan hefur nú tilkynnt öllum þeim aðilum sem hafa lán með ríkisábyrgð og/eða njóta ríkisábyrgða á skuldbindingar sínar vegna eignaaðildar ríkissjóðs, um breytingar á söfnun upplýsinga varðandi lán með ríkisábyrgð. Upplýsingasöfnunin verður stöðluð og stefnt er að því að safna upplýsingum með skilvirkum hætti frá öllum aðilum við lok hvers ársfjórðungs. Er þess vænst að með þessu verði unnt að koma stöðluðum upplýsingum um öll lán með ríkisábyrgð í gagnagrunn. Þannig verður hægt að fylgjast betur með þróun bæði einstakra liða og heildarstærða auk þess að gera áhættugreiningu á einstökum lánum með tilliti til ætlaðra afskrifta.

  • Ríkisábyrgðir má því aðeins veita að heimilað sé í lögum, fjárlögum eða sérlögum. Ábyrgðir eru tvennskonar, sjálfskuldarábyrgðir og einfaldar ábyrgðir. Sjálfskuldarábyrgðir má aðeins veita að það sé sérstaklega tekið fram í lögum þeim sem heimila ábyrgðina. Ábyrgðir á lántökum sjóða í eigu ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana eru eigandaábyrgðir og eru einfaldar ábyrgðir nema annað sé sérstaklega tekið fram. Munur sjálfskuldarábyrgða og einfaldra ábyrgða er einkum sá, að sé um sjálfskuldarábyrgð að ræða er heimilt að krefja ábyrgðarmann strax við greiðslufall. Sé ábyrgð einföld verður að ganga að skuldara til greiðslu áður en krefja má ábyrgðarmann.

  • Fyrir ábyrgð ríkissjóðs á lánum er greitt áhættugjald og hefur svo verið allt frá árinu 1961, en þá voru fyrst sett heildarlög um ríkisábyrgðir. Gjaldið var mishátt eftir því, hvort um var að ræða einfalda ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð. Slíkt gjald var áður fyrr ekki greitt fyrir eigandaábyrgðir ríkissjóðs, þ.e. ábyrgð, sem byggðist á því, að lántaki er í eigu ríkissjóðs. Á árinu 1987 var lögum um ríkisábyrgðir breytt á þann veg, að bankar, lánasjóðir, fyrirtæki og aðrir þeir sem ríkisábyrgðar njóta eða hafa notið, hvort sem er vegna eignaraðildar ríkissjóðs eða annars, skyldu greiða gjald til ríkissjóðs, svokallað ábyrgðagjald. Upphaflega var gjald þetta aðeins greitt af skuldbindingum gagnvart erlendum kröfuhöfum. Með lögum um ríkisábyrgðir nr. 121/1997 var gjaldskylda aukin, og skyldi gjald þetta einnig greitt af innlendum skuldbindingum. Gjald þetta er greitt ársfjórðungslega. Ríkisábyrgðasjóður hefur frá upphafi annast innheimtu gjalds þessa, sem runnið hefur í ríkissjóð.