13.12.17
Ríkissjóður gefur út nýtt skuldabréf í evrum

Ríkissjóður Íslands hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, eða að jafnvirði um 61,5 milljörðum króna.  

Skuldabréfin bera 0,5% fasta vexti og eru gefin út til 5 ára á ávöxtunarkröfunni 0,56%. Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 3,9 milljörðum evra eða ríflega áttfaldri fjárhæð útgáfunnar.  Fjárfestahópurinn samanstendur af seðlabönkum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Evrópu. Umsjón var í höndum Citi, Barclays, Deutsche Bank og Nomura. 

Samhliða nýju útgáfunni gerði ríkissjóður tilboð í eldri skuldabréfaútgáfu frá árinu 2014 sem nam 750 milljónum evra. Eigendur bréfa að nafnvirði 397,6 milljónir evra eða um 49 ma.kr. tóku tilboði ríkissjóðs og fengu þeir sem vildu forgang í nýju útgáfunni. Heildarskuldsetning ríkissjóðs eykst um 12,5 ma.kr. við aðgerðina.

Aðrar fréttir

UNDIRRITUN AÐALMIÐLARASAMNINGA

Í dag var skrifað undir samninga milli Lánamála ríkisins f.h. ríkissjóðs og aðalmiðlara í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði. Markmiðið með samningunum er að viðhalda aðgengi ríkissjóðs að lánsfé, efla verðmyndun ríkisverðbréfa á eftirmarkaði og stuðla að virku markflokkakerfi.

 

Frá og með 1. apríl 2025 hafa fimm fjármálafyrirtæki heimild til að kalla sig „aðalmiðlara með ríkisverðbréf“. Þau eru: Arion banki hf., Fossar fjárfestingarbanki hf., Íslandsbanki hf., Kvika banki hf. og Landsbankinn hf. 

 

Helstu atriði aðalmiðlarasamningsins eru þessi:

  • Aðalmiðlarar hafa einir aðgang að reglubundnum útboðum ríkisverðbréfa.
  • Aðalmiðlarar hafa einir aðgang að sérstakri fyrirgreiðslu, t.d. endurhverfum samningum sem Lánamál ríkisins veita fyrir hönd ríkissjóðs.
  • Aðalmiðlari skuldbindur sig til að setja fram tilboð í útboðum ríkisverðbréfa fyrir a.m.k. 100 m.kr. að nafnverði.
  • Aðalmiðlari er viðskiptavaki ríkisbréfa á eftirmarkaði og setur fram kaup- og sölutilboð að lágmarki 60 til 100 m.kr. að nafnvirði í hvern flokk í kauphöll (nánar skilgreint í samningi).
  • Aðalmiðlari skuldbindur sig til þess að halda verðmun kaup- og sölutilboða innan tiltekinna marka sem nánar eru skilgreind í samningnum.
  • Aðalmiðlara er skylt að endurnýja tilboð sín innan 10 mínútna frá því að þeim hefur verið tekið. Aðalmiðlara er heimilt að víkja út frá hámarksmun kaup- og sölutilboða ef tilteknum skilyrðum er fullnægt.
  • Samningurinn gildir frá 1. apríl 2025 til 31. mars 2026.

 

Frekari upplýsingar veitir Björgvin Sighvatsson forstöðumaður Lánamála ríkisins í síma 569 9600.

 

19.03.25
Ríkisbréf
Ríkisbréfaútboð fellur niður

Lánamál ríkisins hafa ákveðið að fella niður útboð ríkisbréfa sem fyrirhugað var að halda 21. mars 2025 þar sem markmiðum um útgáfu á ársfjórðungnum hefur þegar verið náð.

AÐALMIÐLARASAMNINGAR

Fjármálaráðherra felur Lánamálum ríkisins hjá Seðlabanka Íslands að gera aðalmiðlarasamninga í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði.

 

Innlendir aðilar sem hafa starfsleyfi skv. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, hafa nauðsynlegan búnað til þess að taka þátt í útboðum ríkisverðbréfa og geta sýnt fram á öruggt uppgjör viðskipta hjá Seðlabanka Íslands, geta óskað eftir því að gerast aðilar að samningunum.

 

Aðalmiðlarar hafa einir heimild til þess að leggja fram tilboð í reglubundnum útboðum ríkisverðbréfa. Einnig fá þeir aðgang að sérstakri fyrirgreiðslu t.d. í formi endurhverfra viðskipta með ríkisbréf, í samræmi við reglur og skilmála.

 

Aðalmiðlarar annast viðskiptavakt á ríkisbréfum og er skylt að setja fram tiltekna lágmarksfjárhæð kaup- og sölutilboða í ríkisbréf, með hliðsjón af hámarksmun sem tilgreindur er í samningunum.

 

Frekari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi sýnishorni af aðalmiðlarasamningi. Þeir aðilar sem hyggjast gerast aðalmiðlarar með ríkisverðbréf eru beðnir um að senda rafrænt undirritaða samninga til Lánamála ríkisins fyrir klukkan 16:00 föstudaginn 21. mars 2025.

 

Frekari upplýsingar veitir Björgvin Sighvatsson forstöðumaður hjá Lánamálum ríkisins í síma 569 9600.

Samningur sýnishorn (pdf)