15.02.25
Fitch staðfestir A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfum

Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur birt mat á lánshæfi ríkissjóðs. Lánshæfiseinkunn er óbreytt í A og horfur eru stöðugar. 

Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli miklar tekjur á mann og góða stjórnarhætti, sem eru sambærilegri við lönd með AAA og AA lánshæfiseinkunn. Til styrkleika teljast verulegar lífeyrissjóðseignir, traust fjármálakerfi og sterkir efnahagsreikningar einkageirans. Rúmur gjaldeyrisforði dregur úr næmni hagkerfisins gagnvart ytri áföllum. Hins vegar halda smæð hagkerfisins og einsleitni útflutnings aftur af einkunninni. 

Aukin tiltrú á markverða og viðvarandi lækkun skuldahlutfalls hins opinbera, meiri leitnivöxtur þjóðarbúsins og/eða vísbendingar um aukna fjölbreytni hagkerfisins sem minnka næmni hagkerfisins gagnvart ytri áföllum gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. 

Markverð hækkun skuldahlutfalls hins opinbera, vegna viðvarandi slaka í ríkisfjármálum eða alvarlegt efnahagsáfall, til dæmis vegna skarprar leiðréttingar á fasteignamarkaði, gætu haft neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. 

Sjá nánar á www.stjornarradid.is

Aðrar fréttir

UNDIRRITUN AÐALMIÐLARASAMNINGA

Í dag var skrifað undir samninga milli Lánamála ríkisins f.h. ríkissjóðs og aðalmiðlara í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði. Markmiðið með samningunum er að viðhalda aðgengi ríkissjóðs að lánsfé, efla verðmyndun ríkisverðbréfa á eftirmarkaði og stuðla að virku markflokkakerfi.

 

Frá og með 1. apríl 2025 hafa fimm fjármálafyrirtæki heimild til að kalla sig „aðalmiðlara með ríkisverðbréf“. Þau eru: Arion banki hf., Fossar fjárfestingarbanki hf., Íslandsbanki hf., Kvika banki hf. og Landsbankinn hf. 

 

Helstu atriði aðalmiðlarasamningsins eru þessi:

  • Aðalmiðlarar hafa einir aðgang að reglubundnum útboðum ríkisverðbréfa.
  • Aðalmiðlarar hafa einir aðgang að sérstakri fyrirgreiðslu, t.d. endurhverfum samningum sem Lánamál ríkisins veita fyrir hönd ríkissjóðs.
  • Aðalmiðlari skuldbindur sig til að setja fram tilboð í útboðum ríkisverðbréfa fyrir a.m.k. 100 m.kr. að nafnverði.
  • Aðalmiðlari er viðskiptavaki ríkisbréfa á eftirmarkaði og setur fram kaup- og sölutilboð að lágmarki 60 til 100 m.kr. að nafnvirði í hvern flokk í kauphöll (nánar skilgreint í samningi).
  • Aðalmiðlari skuldbindur sig til þess að halda verðmun kaup- og sölutilboða innan tiltekinna marka sem nánar eru skilgreind í samningnum.
  • Aðalmiðlara er skylt að endurnýja tilboð sín innan 10 mínútna frá því að þeim hefur verið tekið. Aðalmiðlara er heimilt að víkja út frá hámarksmun kaup- og sölutilboða ef tilteknum skilyrðum er fullnægt.
  • Samningurinn gildir frá 1. apríl 2025 til 31. mars 2026.

 

Frekari upplýsingar veitir Björgvin Sighvatsson forstöðumaður Lánamála ríkisins í síma 569 9600.

 

19.03.25
Ríkisbréf
Ríkisbréfaútboð fellur niður

Lánamál ríkisins hafa ákveðið að fella niður útboð ríkisbréfa sem fyrirhugað var að halda 21. mars 2025 þar sem markmiðum um útgáfu á ársfjórðungnum hefur þegar verið náð.

AÐALMIÐLARASAMNINGAR

Fjármálaráðherra felur Lánamálum ríkisins hjá Seðlabanka Íslands að gera aðalmiðlarasamninga í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði.

 

Innlendir aðilar sem hafa starfsleyfi skv. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, hafa nauðsynlegan búnað til þess að taka þátt í útboðum ríkisverðbréfa og geta sýnt fram á öruggt uppgjör viðskipta hjá Seðlabanka Íslands, geta óskað eftir því að gerast aðilar að samningunum.

 

Aðalmiðlarar hafa einir heimild til þess að leggja fram tilboð í reglubundnum útboðum ríkisverðbréfa. Einnig fá þeir aðgang að sérstakri fyrirgreiðslu t.d. í formi endurhverfra viðskipta með ríkisbréf, í samræmi við reglur og skilmála.

 

Aðalmiðlarar annast viðskiptavakt á ríkisbréfum og er skylt að setja fram tiltekna lágmarksfjárhæð kaup- og sölutilboða í ríkisbréf, með hliðsjón af hámarksmun sem tilgreindur er í samningunum.

 

Frekari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi sýnishorni af aðalmiðlarasamningi. Þeir aðilar sem hyggjast gerast aðalmiðlarar með ríkisverðbréf eru beðnir um að senda rafrænt undirritaða samninga til Lánamála ríkisins fyrir klukkan 16:00 föstudaginn 21. mars 2025.

 

Frekari upplýsingar veitir Björgvin Sighvatsson forstöðumaður hjá Lánamálum ríkisins í síma 569 9600.

Samningur sýnishorn (pdf)