27.05.20
Ríkissjóður gefur út skuldabréf í evrum

Ríkissjóður Íslands gaf í dag út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, jafnvirði um 76 milljarða króna. Skuldabréfin bera 0,625% fasta vexti og voru gefin út til 6 ára á  ávöxtunarkröfunni 0,667%.

Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 3,4 milljörðum evra eða nærri sjöfaldri fjárhæð útgáfunnar. Fjárfestahópurinn samanstendur af seðlabönkum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Evrópu. Umsjón útgáfunnar var í höndum Citi,  JP Morgan og Morgan Stanley. 

„Þessi lántaka er staðfesting á greiðum aðgangi ríkissjóðs að fjármagni á alþjóðamörkuðum og sýnir tiltrú fjárfesta á þann viðnámsþrótt sem byggður hefur verið upp á síðustu árum. Hún eykur getu okkar til að mæta afleiðingum heimsfaraldurs kórónuveiru og endurspeglar mikinn styrk og getu til að sigrast á efnahagslegum afleiðingum hans.“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. 

Í útboðsferlinu bötnuðu kjör ríkissjóðs um 30 punkta vegna mikillar eftirspurnar. Vel yfir 200 aðilar sýndu útgáfunni áhuga, eða um helmingi fleiri aðilar en í síðustu útgáfu ríkissjóðs, og heildareftirspurn nam um sjöfaldri útboðsfjárhæðinni.

„Útgáfan er í samræmi við stefnu ríkissjóðs í lánamálum, auðveldar aðgengi annarra innlendra aðila að erlendum lánsfjármörkuðum og staðfestir greiðan aðgang ríkissjóðs að stórum og fjölbreyttum hópi fjárfesta. Markaðir hafa verið líflegir að undanförnu enda eru mörg ríki í sömu sporum, að tryggja sér fjármagn til lengri tíma," segir Bjarni Benediktsson.      

Aðrar fréttir

05.11.25
Ríkisbréf
Tilkynning um útboð ríkisbréfa - RIKB 38 0215 - RIKS 50 0915
Flokkur RIKB 38 0215 RIKS 50 0915
ISIN IS0000037265 IS0000037794
Gjalddagi 15.02.2038 15.09.2050
Útboðsdagur 07.11.2025 07.11.2025
Uppgjörsdagur 12.11.2025 12.11.2025
10% viðbót 11.11.2025 11.11.2025

Á útboðsdegi, milli kl. 10:30 og 11:00, fer fram útboð hjá Lánamálum ríkisins á ríkisbréfum í þeim flokkum, með þeim ISIN númerum og með þeim gjalddögum sem fram koma í töflunni hér að ofan. Greiðslur fyrir ríkisbréfin þurfa að berast Seðlabankanum fyrir kl. 14:00 á uppgjörsdegi og verða bréfin afhent rafrænt sama dag. Um 10% viðbótarkaupréttinn gildir 6. gr. í almennum útboðsskilmálum ríkisbréfa.

Að öðru leyti er vísað til lýsingar skuldabréfaflokksins og almennra útboðsskilmála ríkisbréfa á heimasíðu Lánamála ríkisins.

Nánari upplýsingar veitir Magnús Freyr Hrafnsson, Lánamálum ríkisins í síma 569 9679.

20.10.25
Ríkisbréf
Viðskiptavakt hefst með RIKS 50 0915

Í framhaldi af útboði sem haldið var föstudaginn 17. október sl. og með vísan til aðalmiðlarasamnings í tengslum við útgáfu ríkisverðbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði dags. 21. mars 2025, hefur verið ákveðið að hefja viðskiptavakt með RIKS 50 0915 frá og með uppgjörsdegi útboðsins þann 22. október 2025. Aðalmiðlarar verða skuldbundnir til þess að setja fram kaup- og sölutilboð fyrir að lágmarki 50 m.kr. að nafnverði í flokkinn. Frá sama tíma verður fyrirgreiðsla í formi endurhverfra viðskipta til hvers aðalmiðlara 2 ma.kr. að nafnverði.

Starfsfólk Lánamála ríkisins veitir nánari upplýsingar í síma 569 9994. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið [email protected].